Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing um kaup Mílu á Gagnaveitu Skagafjarðar ehf. sem verður hluti af umfangsmiklu fjarskiptaneti Mílu. Samhliða kaupunum verður ráðist í fjárhagslega endurskipulagningu Gagnaveitunnar sem mun tryggja rekstrargrundvöll hennar til framtíðar. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu sem send var fjölmiðlum.

„Míla og Gagnaveita Skagafjarðar munu halda áfram fyrirhugaðri háhraðanetsuppbyggingu í Skagafirði og er stefnt að því að Ljósveituvæðingu verði lokið á Sauðárkróki innan árs. Einnig verður ráðist í lagningu Ljósveitu á Hólum í Hjaltadal, ljósleiðaratengingu að Varmahlíð og Akrahreppi og lagningu Ljósveitu á Hofsósi,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að Gagnaveitan og Míla muni einnig vinna með sveitarfélaginu Skagafirði að uppbyggingu nauðsynlegra gagnatenginga vegna hugsanlegs gagnaversiðnaðar í Skagafirði.

Gagnaveita Skagafjarðar þjónar í dag íbúum og fyrirtækjum Skagafjarðar í þéttbýli og dreifbýli.  Ljósleiðaranet fyrirtækisins nær til um 650 heimila og 80 fyrirtækja á svæðinu.

Míla sér fjarskipta-, öryggis- og afþreyingarfyrirtækjum fyrir aðstöðu og dreifileiðum um net ljósleiðara og koparstrengja sem tengja byggðir landsins við umheiminn.