Fyrsta skrefið í átt að einföldun á greiðslumiðlun í evrum innan Evrópu var stigið í dag, 28.janúar 2008, með innleiðingu á svokölluðum SEPA stöðlum hvað varðar kortagreiðslur og millifærslur í öllum Evrópuríkjum. SEPA er skammstöfun á hugtakinu „Single Euro Payments Area” og er heiti á sameiginlegum stöðlum og reglum EPC (European Payments Council) varðandi greiðslur í evrum.

Í tilkynningu vegna þessa segir að markmiðið með SEPA sé að gera millifærslur í evrum milli landa jafn auðveldar og innanlands, enda kveða reglur ESB á um að kostnaður við millifærslur á evrum verði að vera sá sami hvort heldur sem er milli landa eða innanlands. Unnið hefur verið að því á vegum EPC síðan árið 2002 að leita leiða til að ná þessu markmiði.  Gert er ráð fyrir að SEPA verði að fullu komið til framkvæmda árið 2010.

Áhrif SEPA hér á landi

SEPA nær ekki einvörðungu til evrusvæðisins, heldur hafa öll ESB og EFTA ríkin tekið þátt í þessari vinnu til að tryggja hraða og örugga greiðslumiðlun með evrur innan Evrópu. Bankar og sparisjóðir hér á landi hafa þegar tekið upp alla SEPA staðla og eru tilbúnir til að taka á móti og senda SEPA greiðslur frá og með 28. janúar. SEPA mun þó ekki hafa áhrif á innlenda greiðslumiðlun á Íslandi frekar en í þeim Evrópuríkjum sem ekki eru með evruna sem lögeyri.

SEPA á að gera íslenskum greiðslukortahöfum kleift að nota kortin sín víðar en hingað til. Þegar SEPA er að fullu komið til framkvæmda eiga þannig allir sölu- og þjónustuaðilar innan Evrópu að taka hvaða greiðslukort sem er svo framarlega sem það fullnægi SEPA stöðlunum. Millifærslur með evrur eiga einnig að verða skjótvirkari en áður. Slíkar greiðslur mega ekki taka lengri tíma en þrjá daga og stefnt er að því að þær gangi í gegn á einum degi innan fárra ára.

Afgreiðsla við innkomna SEPA greiðslu mun breytast að því leiti að nú er símgreiðslu-upphæðin í heild lögð inn á reikning viðtakanda og kostnaðurinn síðan skuldfærður af reikningnum eftirá. SEPA hefur ekki áhrif á gjaldeyrisviðskipti milli evru og annarra mynta.