Beinn sparnaður vegna fjölbreyttra aðgerða heilbrigðisyfirvalda í lyfjamálum nemur á tæpu ári rúmlega einum milljarði króna. í frétt frá heilbrigðisráðuneytinu segir að um mitt liðið ár leit út fyrir að lyfjakostnaður ársins yrði um 16,2% hærri en hann var árið áður. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var allt útlit fyrir að útgjaldahækkun myndi nema 1,1 milljarði króna.

„Margvíslegar aðgerðir af hálfu ráðuneytisins, lyfjagreiðslunefndar og lyfjafyrirtækja ásamt hagstæðri gengisþróun seinni hluta árs 2007, urðu til þess að hækkunin varð aðeins um fimm af hundraði og útgjöldin jukust um 350 milljónir króna," segir í frétt ráðuneytisins.

Um 400 milljóna sparnaður hlaust vegna útboðs lyfja, og um 20% þeirrar var vegna lyfja sem var verið að bjóða út í fyrsta skipti.