Í dag mun milljónasti farþegi WOW air fljúga með félaginu. Farþegafjöldi WOW air hefur vaxið jafnt og þétt frá fyrsta flugi félagsins í maí 2012. Fyrsta árið flugu um 110 þúsund farþegar með flugfélaginu og árið 2013 flaug WOW air með um 415 þúsund farþega. Gert er ráð fyrir 60% aukningu á farþegum milli ára frá um 500 þúsund farþegum nú í ár í um 800 þúsund farþega á næsta ári.

Gunnhildur Blöndal er milljónasti farþegi WOW air og flýgur nú utan seinni partinn ásamt manni sínum Björgvini Viktor Þórðarsyni.

„Við erum að fljúga til London Gatwick flugvallar og erum á leiðinni til Brighton til að versla inn jólagjafirnar og njóta þess að ganga um bæinn. Við erum búin að vera saman í sjö ár og aldrei komist í frí saman áður, svo það má segja að þetta sé stór stund hjá okkur. Við ætlum að vera þarna í sex daga, við höfum aldrei komið þarna áður en heyrt margt gott um Brighton. Maðurinn minn hefur áður flogið með WOW air og fór þá líka til London,“ segir Gunnhildur Blöndal sem fékk af þessu tilefni afhent gjafabréf fyrir tvo og ætla þau að skella sér til Dyflinnar næsta sumar.

„Ég er mjög stoltur af því að í dag skulum við fljúga með milljónasta gestinn okkar og afar þakklátur fyrir þær móttökur sem við höfum fengið bæði hér innanlands og erlendis frá fyrsta degi. Það er magnað að nú höfum við flogið með þrefaldann fjölda íslensku þjóðarinnar frá fyrsta flugi okkar. Þessar góðu móttökur hvetja okkur svo sannarlega að halda áfram þeirri stefnu okkar að vera með nýjustu flugvélarnar á Íslandi, vera stundvísasta flugfélagið og bjóða upp á langódýrasta flugið til og frá Íslandi,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air.