Töluvert hefur dregið úr neyslu sykraðrar gosdrykkjaneyslu Íslendinga á síðustu tveimur árum en markaðshlutdeild sykraðra gosdrykkja af heildar gosdrykkjaneyslu hefur lækkað um 5 prósentustig á tímabilinu. Mynd af þróun neyslunnar má sjá hér að neðan.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda fór yfir umræddar breytingar í Morgunútvarpinu á Rás 1 en tilefnið eru hugmyndir Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, um endurupptöku sykurskatts en Ólafur ræddi hugmyndirnar við Sigríði Kristínu Hrafnkelsdóttur, formann Félags lýðheilsufræðinga.

Í umræðunum benti Ólafur á að neysla sykraðs goss hefði dregist saman án þess að til kæmi sykurskattur eða önnur opinber neyslustýring og sagði þetta dæmi um að gosdrykkjaframleiðendur mættu þörfum og óskum neytend. Þannig sagði Ólafur að stór innlendur gosdrykkjaframleiðandi hefði á undanförnum sex árum minnkað magn sykurs í hverjum framleiddum lítra um 15%.

„Þetta er miklu hraðari þróun en menn telja sig hafa séð með upptöku sykurskatts, til dæmis í Mexíkó,“ sagði Ólafur og sagði að sér þætti upplýsingar og vitundarvakning skynsamlegri leið til þess að draga úr sykurneyslu.

Samkvæmt gögnum frá Markaðsgreiningu/AC Nielsen fyrir síðustu 35 mánuði, þ.e. frá ársbyrjun 2015, hefur markaðshlutdeild sykraðra gosdrykkja lækkað úr 51% í 46%. Hlutfall sykurlausra gosdrykkja, þ.e. með sætuefnum, stendur í stað og er 26%, en hlutdeild kolsýrðra vatnsdrykkja hefur hækkað úr 22% í 28%. Á sama tíma hefur markaðurinn stækkað, þannig að þessar tölur þýða að neysla á sykruðum gosdrykkjum hefur minnkað um 12% og neysla ósætra drykkja um 3%, en neysla á kolsýrðu vatni hefur vaxið um 34%. Þessi gögn eru byggð á upplýsingum úr kassakerfum um 95% smásöluverslana á Íslandi að því er kemur fram í frétt á vef Félags atvinnurekenda .