Arion banki hagnaðist um 761 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi 2019 samanborið við 1,1 milljarð króna á sama tímabili 2018. Arðsemi eigin fjár var 1,6% á þriðja ársfjórðungi 2019 samanborið við 2,3% á sama tímabili árið 2018. Arðsemi bankans fyrstu níu mánuði ársins var 2,6% en 3,9% á sama tímabili í fyrra.

Arion banki hagnaðist um 3,9 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við 6,2 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 sem samsvarar 37% hagnaðarsamdrætti.

Þá hyggst bankinn hefja endurkaup hlutabréfa fyrir allt að 4,5 milljarða króna.

Hagnaður af áframhaldandi starfsemi nam 3,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi og 8,85 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum 2019, samanborið við 1,35 milljarða á þriðja ársfjórðungi 2018 og 6,8 milljarða króna fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2018. Arðsemi eigin fjár af áframhaldandi starfsemi var um 8,5% á þriðja ársfjórðungi og 6,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. Dótturfélögin Valitor Holding, Stakksberg, sem á verksmiðju United Silicon, og TravelCo eru skilgreind sem eignir til sölu. Arion banki sendi frá sér afkomuviðvörun fyrr í október vegna þriggja milljarða bókfærðs taps af eignunum þremur.

Heildareignir námu 1.213 milljörðum króna í lok september 2019 samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok 2018. Lán til viðskiptavina lækkuðu um 21,3 milljarða króna eða 3% og er það í samræmi við auknar áherslur bankans á arðsemi fremur en lánavöxt. Eigið fé nam 196 milljörðum króna, samanborið við 201 milljarð króna í árslok 2018.

Eiginfjárhlutfall bankans, að teknu tilliti til afkomu á þriðja ársfjórðungi, var 23,6% í lok september 2019 en var 22,0% í árslok 2018.

„Áfram eru jákvæð merki í reglulegri starfsemi Arion banka. Má þar nefna að vaxtatekjur og tekjur af tryggingastarfsemi vaxa á milli ára og arðsemi af áframhaldandi starfsemi bankans á þriðja ársfjórðungi var 8,5%. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun er afkoma Arion banka á ársfjórðungnum undir markmiðum sökum þátta sem bankinn hefur þegar gert grein fyrir. Hér er einkum um að ræða umtalsverðar niðurfærslur á félögum sem bankinn er með í söluferli, áframhaldandi fjárfesting í alþjóðlegri starfsemi Valitor og gjaldfærsla kostnaðar vegna skipulagsbreytinga. Fjárhagsstyrkur bankans er áfram mikill og lausafjárhlutföll sterk. Því fylgja margir kostir og höfum við ákveðið að ráðast í endurkaupaáætlun á eigin hlutabréfum að fjárhæð 4,5 milljarða króna, sem hefst 31. október, í samræmi við markmið bankans um lækkun á eigin fé. Sterk lausafjárstaða í bæði krónum og erlendum myntum þýðir jafnframt að bankinn er í kjörstöðu til að þjóna viðskiptavinum sínum en einnig til að huga að endurkaupum á eldri og óhagstæðari heildsölufjármögnun. Bankinn kynnti í lok þriðja ársfjórðungs umfangsmiklar skipulagsbreytingar og nýjar áherslur í starfseminni. Markmið breytinganna er að styrkja samkeppnishæfni bankans og auka arðsemi eiginfjár. Við þessar breytingar fækkaði starfsfólki bankans um 12% og sviðum bankans um tvö. Stefna bankans um að veita viðskiptavinum sínum fjölbreytta fjármálaþjónustu og vera í fararbroddi þegar kemur að stafrænni fjármálaþjónustu er óbreytt. Hins vegar má segja að um ákveðna áherslubreytingu sé að ræða þegar kemur að fjármögnun fyrirtækja. Vegna hárra skatta og mikilla eiginfjárkvaða á fjármálafyrirtæki getur verið hagstæðara fyrir sum fyrirtæki að fjármagna sig með öðrum hætti en hefðbundnum bankalánum. Arion banki ætlar að efla þjónustu við þessi fyrirtæki, vera ráðgefandi um hagstæðustu fjármögnun hverju sinni og vera öflugur samstarfsaðili með heildarhagsmuni þeirra í fyrirrúmi," segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.