Foss fasteignafélag hagnaðist um 9,2 milljónir króna á fyrri helmingi ársins og dróst hagnaðurinn saman frá sama tíma á síðasta ári þegar hann nam 31,7 milljónum króna. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikningi fyrirtækisins.

Rekstrarhagnaður fyrirtækisins er nokkurn veginn óbreyttur milli ára og nam 159 milljónum króna á fyrri hluta ársins. Minni hagnaður virðist fyrst og fremst útskýrast af hærri vaxtagjöldum, en þau námu 149,8 milljónum króna á fyrri hluta ársins borið saman við 127,5 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Heildareignir félagsins námu 5.272 milljónum króna í lok tímabilsins samkvæmt efnahagsreikningi. Skuldir voru 4.064 milljónir króna og nam eigið fé fyrirtækisins því 1.209 milljónum króna.

Foss fasteignafélag á og rekur húsið að Bæjarhálsi 1, þar sem höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur eru til húsa.