Landsframleiðsla á evrusvæðinu jókst um 0,7% að raungildi á fyrsta fjórðungi ársins frá síðasta ársfjórðungi 2007 en bráðabirgðamat hafið gefið til kynna 0,8% hagvöxt á fjórðungnum eftir 0,4% hagvöxt fjórðunginn á undan.

Hagvöxtur á fyrstu þremur mánuðum ársins var 2,1% frá sama tímabili síðasta árs og hefur hagvöxtur ekki mælst minni frá fjórða ársfjórðungi 2005.

Evrópska hagstofan birti endurskoðaðar landsframleiðslutölur af evrusvæðinu í morgun en frá þessu er greint í Morgunkorni Glitnis.

Þrátt fyrir skýr merki kólnunar hagkerfisins síðustu mánuði hækkaði evrópski seðlabankinn stýrivexti sína um 0,25 prósentur á síðasta vaxtaákvörðunardegi bankans, 3. júlí sl., og eru vextir nú 4,25% á evrusvæðinu.

Ástæðu vaxtahækkunarinnar má rekja til versnandi verðbólguhorfa á evrusvæðinu vegna hækkandi matvæla- og orkukostnaðar.

Verðbólga mældist 4,0% í júní en ECB leitast við að halda verðbólgu undir, en þó sem næst, 2%.