Iðnframleiðsla í Bandaríkjunum dróst saman um 0,2% í febrúar samkvæmt tilkynningu bandaríska seðlabankans, en fyrri spár höfðu gert ráð fyrir 0,1% aukningu. Slæmt veðurfar, sterkt gengi dollarans og vinnumarkaðsdeilur eru taldar meðal helstu orsaka minni umsvifa. Þá lækkaði væntingavísitala meðal aðila í byggingariðnaði milli mánaða, en einungis lítillega fleiri markaðsaðilar eru nú jákvæðir á ástandið heldur en neikvæðir. Reuters greinir frá .

Námuvinnsla og olíuframleiðsla drógust saman um 2,5% í síðasta mánuði í skugga lágs olíuverðs, en uppsafnaðar olíubigðir í Bandaríkjunum hafa ekki verið meiri síðan 1982 . Þriggja prósenta samdráttur varð í bílaframleiðslu í síðasta mánuði. Þá dróst framleiðsla saman í ýmsum öðrum geirum, allt frá málmframleiðslu til textíliðnaðar. Hins vegar jókst orkuframleiðsla talsvert í ljósi þess kalda veðurfars sem hrellt hefur Bandaríkjamenn undanfarin misseri.

Fréttir dagsins af bandarískum hagvísum virðast ekki hafa valdið uggi meðal fjárfesta, en Dow Jones vísitalan hefur til að mynda hækkað um 1,2% það sem af er degi. Ástæðan gæti verið sú að hinar nýju fréttir eru taldar minnka líkur á vaxtahækkun af hálfu bandaríska seðlabankans, en auk þess að dempa eignaverð gæti vaxtahækkun styrkt gengi dollarans og þannig veikt samkeppnishæfni bandarískra framleiðenda.