Líklegt þykir að olíuverð lækki á komandi vikum, segir greiningardeild Íslandsbanka, en olíuverð hefur sjaldan verið hærra.

Í gær lækkuðu framvirkir samningar á hráolíu talsvert í verði og endurspeglar það væntingar markaðsaðila.

OPEC ákvað að halda framleiðslunni í hámarki til þess að koma í veg fyrir frekari verðhækkanir á olíu.

Hækkun undanfarinna vikna má, að einhverju leyti, rekja til spennu á milli alþjóðasamfélagsins og Írans, en þeir hyggjast auðga úran.

Útflutningsbanni hefur verið hótað á Íran vegna kjarnorkuáætlunarinnar en þeir eru fjórði stærsti olíuframleiðandinn í heiminum.

Að sama skapi eru hráolíubirgðir Bandaríkjanna yfir meðallagi. Það ætti að draga úr spennu á olíumörkuðum, segir greiningardeildin.