*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 17. nóvember 2019 11:02

Minni svartsýni nú en í vor

Fjármálastjórar fyrirtækja hér á landi eru almennt bjartsýnni á framtíðina heldur en þeir voru í vor.

Jóhann Óli Eiðsson
Stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa aldrei verið lægri og fækkar í hópi þeirra sem telja þá of háa.
Gígja Einars

Horfur næstu mánaða eru ekki jafn dökkar nú og fyrir hálfu ári að mati fjármálastjóra hér á landi. Þá upplifa fjármálastjórar hér á landi minni óvissu en starfsbræður þeirra á erlendri grund. Þetta er meðal niðurstaðna úr nýrri fjármálastjórakönnun Deloitte.

Umrædd könnun er lögð fyrir fjármálastjóra tvisvar á ári, það er á vormánuðum og á ný að hausti, og endurspegla þannig viðhorf um 1.400 fjármálastjóra í nítján löndum. Könnunin er unnin í samstarfi við önnur aðildarfélög Deloitte á EMEA-svæðinu en það inniheldur meðal annars Sviss, Þýskaland, Danmörk, Lúxemborg, Holland, Noreg, Rússland, Tyrkland og Bretland. Hér á landi fengust flest svör frá fjármálastjórum sem starfa í verslunar- og þjónustugeiranum.

„Það mælist áfram nokkur svartsýni hér á landi en það hefur dregið töluvert úr henni frá síðustu könnun. Það er mjög áhugavert að bera saman íslensku svörin við EAMA-svæðið en væntingar hér eru að einhverju leyti betri en annars staðar. Það er sérstaklega afgerandi þegar spurt er um að hvaða leyti þeir upplifi efnahagslega og fjárhagslega óvissu þá upplifa Íslendingarnir mun minni óvissu,“ segir Lovísa A. Finnbjörnsdóttir, sviðsstjóri fjármálaráðgjafar Deloitte.

Síðast er könnunin var lögð fyrir var óvissa nokkuð meiri hér á landi sem rekja mátti til atburða í tengslum við fall Wow air. Niðurstöðurnar þá voru þær svartsýnustu frá því að könnunin var fyrst lögð fyrir. „Þó að svartsýni sé nokkur er hún umtalsvert minni nú enda staðan skýrst síðan þá. Mesta bjartsýnin er hjá fjármálafyrirtækjum og fyrirtækjum í útflutningsgreinum en aðrir fjármálastjórar stilla væntingum í hóf,“ segir Lovísa.

Venju samkvæmt var spurt út í viðhorf fjármálastjóra til stýrivaxta Seðlabanka Íslands og kannað hvort menn teldu þá of háa. Vanalega hefur hlutfall þeirra sem telja þá mega vera lægri verið í kringum 88%. Frá síðustu könnun hafa stýrivextir hins vegar lækkað um 125 punkta. Afleiðingin er sú að aðeins 57% fjármálastjóra telja stýrivextina of háa.

„Stýrivextir hafa aldrei verið lægri og endurspeglast það í afgerandi breytingum í niðurstöðunum. Það er hins vegar áhugavert að bera Ísland og EAMA-svæðið saman þegar kemur að því hvort fjármálastjórar telji lán frá bönkum hagkvæma leið til fjármögnunar að svo stöddu. Þar er talsverður munur á og telja fjármálastjórar hér á landi það ekki jafn fýsilegan kost og starfsbræður ytra,“ segir Lovísa.

Að þessu sinni var einnig spurt út í viðbrögð fyrirtækja við loftslagsbreytingum. Meðal niðurstaðna var að fjármálastjórar finni fyrir þrýstingi til aðgerða frá starfsmönnum, stjórn, stjórnvöldum og stjórnendum. Lítill eða enginn þrýstingur berist hins vegar frá bönkum, lánveitendum eða samkeppnisaðilum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér