Heildarfjöldi farþega Icelandair í innanlands- og millilandaflugi í mars var um 184.000, samanborið við 24.000 í mars 2021 og 125.000 í febrúar á þessu ári. Í fréttatilkynningu þar sem greint er frá þessu segir að þessi umtalsverða fjölgun milli mánaða sé til marks um minnkandi áhrif heimsfaraldursins á starfsemi félagsins. Flugframboð í mars hafi verið um 64% af framboði sama mánaðar árið 2019 samanborið við 58% í febrúar.

„Heildarfjöldi farþega í millilandaflugi var 161.000, samanborið við 8.000 í mars 2021. Þar af voru farþegar til Íslands um 92.000 og frá Íslandi um 34.000. Tengifarþegar voru 35.000 og stundvísi var 75%. Sætanýting í millilandaflugi var 74%, samanborið við 28% í mars 2021,“ segir í fréttatilkynningu.

Farþegar í innanlandsflugi hafi svo verið um 23.000, samanborið við 16.000 í fyrra. Sætanýting í innanlandsflugi hafi verið 83%, samanborið við 63% í mars 2021. Innanlandsflugið hafi náð sér vel og farþegum fjölgað um 24% það sem af er ári samanborið við sama tímabil árið 2021.

Seldum blokktímum í leiguflugi hafi svo fjölgað um 5% samanborið við mars 2021 meðan fraktflutningar hafi haldist svipaðir á milli ára.

„Icelandair hætti olíuvörnum þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst vegna mikillar óvissu varðandi flugáætlun félagsins. Aflétting þeirra umfangsmiklu ferða- og samkomutakmarkana sem settar voru á vegna faraldursins hefur aukið fyrirsjáanleika í starfseminni og því hefur félagið hafið varfærnar aðgerðir til að auka eldsneytisvarnir. Þannig hefur félagið tryggt sér 25% af áætlaðri notkun annars ársfjórðungs á meðalverðinu 663 Bandaríkjadalir tonnið og 18% af áætlaðri notkun þriðja ársfjórðungs á meðalverðinu 934 Bandaríkjadalir tonnið,“ segir í tilkynningu flugfélagsins.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Við höfum aukið flugið jafnt og þétt síðan á seinni hluta síðasta árs samhliða afléttingum sóttvarnaraðgerða. Staða heimsmála í tengslum við stríðið í Úkraínu hefur skapað ákveðna óvissu í rekstri flugfélaga og við munum hér eftir sem hingað til nýta sveigjanleika félagsins til þess að laga okkur að aðstæðum hverju sinni.

Við finnum fyrir miklum ferðaáhuga á öllum okkar mörkuðum, hvort sem er til og frá Íslandi, yfir hafið eða innanlands. Það er ánægjulegt að hefja flug á ný til fjölmargra vinsælla áfangastaða okkar og einnig að bæta við nýjum og spennandi áfangastöðum í sumar."