Verðbólgan mælist nú 1,8% á ársgrundvelli og hefur ekki mælst minni síðan árið 2011. Þetta kemur fram á vef Samtaka atvinnulífsins (SA). Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,12% í september.

„Ef hækkanir á húsnæði eru undanskildar hefur verðlag hækkað um 0,4% sl. 12 mánuði," segir á vef SA. „Verðbólga vöru- og þjónustuliða er því lítil sem engin og fara verður tæpan áratug aftur í tímann til að finna minni hækkun þeirra. Á síðastliðnum þremur mánuðum hefur verðlag lækkað um 0,05% sem jafngildir 0,2% lækkun verðlags á heilu ári.

Verðlækkunin í september stafar fyrst og fremst af mikilli lækkun flugfargjalda. Yfirleitt hækkar verð í september vegna áhrif útsöluloka. Lækkun verðlags nú er óvenjuleg en verður að leita aftur til ársins 1992 til að finna fordæmi fyrir lækkun verðlags í septembermánuði. Þetta eru góðar fréttir fyrir heimili og fyrirtæki. Stöðugt verðlag er eitt meginmarkmið gildandi kjarasamninga og það ásamt  hófstilltum launahækkunum stuðlar að betri lífskjörum."

Verðbólgan hefur nú verið undir markmiði Seðlabankans í átta mánuði samfleytt en stýrivextir bankans hafa haldist óbreyttir í 22 mánði eða síðan í nóvember 2012.

„Þróun verðbólgu á árinu hefur verið afar jákvæð en frá upptöku verðbólgumarkmiðs hefur hún haldist mest þrettán mánuði samfleytt undir markmiði, á árunum 2002-2003. Samfara lágri verðbólgu hafa raunvextir hækkað," segir á vef SA.

Vísbendingar er um að kraftur hagkerfisins sé minni en spár hafa gert ráð enda var lítill hagvöxtur á fyrri helmingi ársins.

„Hagvöxtur á fyrstu sex mánuðum ársins var 0,6% og einkum knúinn af vexti í einkaneyslu, en á sama tíma var vöxtur fjárfestingar lítill. Auk hægari hagvaxtar en búist var við  breyttist samsetning hans til hins verra þannig að hann var knúinn af aukinni einkaneyslu í  stað þess að vera knúinn af auknum útflutningi eins og á síðasta ári.

Við blasir að háir raunvextir hafa takmarkandi áhrif á fjárfestingar. Á sama tíma hefur styrking raungengis undanfarin misseri áhrif á neyslumynstur heimila og stuðlar að auknum innflutningi. Seðlabankinn verður að gæta þess að kæfa ekki fjárfestingarvilja atvinnulífsins með sligandi fjármagnskostnaði þótt markmið hans sé að halda verðbólguvæntingum innan markmiðsins."