Fjármálaráðuneytið áréttar í vefriti sínu að árleg afkoma ríkissjóðs myndi versna um 500 milljónir króna fyrir hvert 0,1 % (10 punkta) sem vaxtakostnaður ríkissjóðs af lántöku upp á 500 milljarða verður hærri en vaxtatekjur. „Það skiptir því ekki litlu að rétt sé á málum haldið,” segir í vefritinu. Bent er á að þessi staðreynd hafi komið fram í kostnaðarumsögn með frumvarpinu.

Þá hafi bæði í athugasemdum við frumvarp það sem Alþingi samþykkti í vor, er kveður á um heimild til allt að 500 milljarða króna láns, og í umsögn efnahags- og skattanefndar, hafi komið fram að ekki lægi fyrir hvenær eða að hvaða marki heimildin yrði nýtt, og tæpast yrði hún nýtt nema að hluta í fyrstu. Því sé það misskilningur sem fram hefur komið í opinberri umræðu að heimildin hafi verið ætluð til tafalausra lántöku upp á 500 milljarða.

Útgáfa ríkisbréfa og ríkisvísla

„Í framhaldi af samþykkt lántökuheimildarlaganna hefur verið unnið að málinu ... Þegar hefur verið tekin ákvörðun um auknar innlendar lántökur ríkissjóðs í formi ríkisbréfaútgáfu og gjaldeyrisforðinn hefur verið aukinn nokkuð með útgáfu ríkisvíxla í evrum og bandaríkjadölum,” segir í vefritinu.