Þrátt fyrir að árangur í ríkisfjármálum sé óumdeilanlegur þá hefur aðlögun gengið of hægt. Þetta eru niðurstöður greiningardeildar Arion banka sem telur yfirvöld hafa farið á mis við tækifæri við samþykkt fjárlaga í fyrrinótt. „Hugsanlega hefði mátt nýta það svigrúm sem ríkissjóður hafði vegna skárri afkomu en horfur voru á fyrstu árin eftir hrun til þess að hraða niðurgreiðslu skulda í stað þess að hægja á nauðsynlegum aðhaldsaðgerðum. [ ... ]Þegar svo háttar til ætti að vera forgangsatriði að grynnka á skuldum, en til viðbótar er það mikilvægt skref við afnám gjaldeyrishafta.“

Greiningardeildin segir ljóst að fjárlög hafi litast af komandi kosningum.

„Við höfum lagt áherslu á að það sé skynsamlegt að nýta allar tekjur af eignum sem íslenska ríkið hefur skuldsett sig fyrir til að greiða niður skuldirnar, en ekki til að fjármagna viðbótarútgjöld.“ Þannig gagnrýnir greiningardeildin að arðgreiðslur af eignum hins opinbera séu notaðar til fjármögnunar nýrra verkefna frekar en til að greiða niður skuldir.

Greiningardeildir bendir að lokum á að nokkur óvissa ríki um framkvæmd fjárlaga sem hefði enn átt að hvetja til þess að svigrúm í fjárlögum væri skynsamlega nýtt. Í þessu samhengi er bent á Íbúðalánasjóð, mögulega byggingu nýs Landspítala, kjarasamninga og hagvaxtarþróun.