Tap bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers nam um 2,8 milljörðum Bandaríkjadala (tæpl. 213 milljarðar ísl.kr.) á öðrum ársfjórðungi og er þetta að sögn Bloomberg fréttaveitunnar í fyrsta skipti sem bankinn tapar slíkum upphæðum á einum ársfjórðungi.

Uppgjör bankans verður kynnt eftir viku en bráðabirgðar útreikningar voru birtir í morgun. Ekki er liðin vika frá því að talsmenn bankans neituðu því að bankinn væri að tapa fjármagni. Á sama tíma í fyrra hagnaðist bankinn um 1,3 milljarða dala.

Í tilkynningu í dag kemur fram að bankinn hyggst nú auka hlutafé sitt um 6 milljarða Bandaríkjadali

Richard Fuld, forstjóri Lehman Brothers segist vera „mjög vonsvikinn“ með niðurstöður ársfjórðungsins en bætti því við að allt kapp yrði nú lagt á að auka hlutafé bankans auk þess að styrkja eignfjárstöðu hans.