Greiningardeild Kaupþings hefur uppfært verðmat sitt á Actavis í kjölfar ársuppgjörs félagsins og mælir með kaupum í félaginu. Sjóðstreymismat gefur gengið 74,3 krónur á hlut og tólf mánaða markgengi er 82 krónur á hlut. Gengi félagsins var 69,6 við lok markaðar í dag, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis.

?Actavis virðist við fyrstu sýn vera hærra verðlagt en meðaltal þeirra félaga sem við berum Actavis saman við, en að teknu tilliti til vaxtar í hagnaði á hlut er félagið í hópi þeirra ódýrustu á markaði. Einnig eru verðkennitölur Actavis nokkuð undir þeim verðkennitölum sem sést hafa í yfirtökum á samheitalyfjafyrirtækjum undanfarið,? segir greiningardeildin.

Hún segir Actavis ráði nú yfir um 5% af útgefnum hlutum í félaginu og þá var samþykkt á hluthafafundi í byrjun febrúar að heimila stjórn félagsins að auka hlutafé um allt að 1,2 milljarða króna að nafnvirði, eða um 35%.

Greiningardeildin telur ljóst að Actavis er að búa sig undir hugsanleg kaup á samheitalyfjahluta lyfjarisans Merck, en talið er að söluverðið verði að minnsta kosti ekki undir fjórum milljörðum evra eða um 355 milljarða króna.

?Við teljum að samheitalyfjahluti Merck falli vel að núverandi starfsemi Actavis og að hann geti skilað félaginu verulegum ávinningi, en það ræðst þó á endanum af því verði sem greiða þarf,? segir greiningardeildin.