Áslaug Magnúsdóttir fjárfestir stofnaði ásamt viðskiptafélaga sínum, Lauren Santo Domingo, tískusíðuna Moda Operandi árið 2010. Á vef Moda gátu einstaklingar í fyrsta sinn pantað kjóla og annan tískuvarning á netinu, beint af sýningarpöllum tískusýninga.

„Eftir hrunið hætti fólk að eyða miklum peningum í tísku og búðirnar úti pöntuðu miklu minna frá framleiðendum. Það sem þær pöntuðu voru yfirleitt söluvænlegustu og einföldustu kjólarnir því þær vildu ekki taka áhættu. Hönnuðirnir voru orðnir pirraðir á því að búðirnar voru ekki að panta flottustu kjólana,“ segir Áslaug. Það vantað millilið sem tengdi saman hönnuði og kaupendur hátískuvarnings fyrst verslanir voru ekki tilbúnar að taka þá áhættu.

„Þannig að það vantaði vettvang fyrir hönnuði sem vildu selja þessa kjóla og kaupendur út um allan heim sem vildu kaupa þá. Ég sá fyrir mér að það þyrfti að tengja beint, kaupendur og seljendur. Það varð að gerast strax eftir sýningar því yfirleitt er ákveðið nokkrum vikum eftir sýningar hvað á að framleiða og það tekur nokkra mánuði í framleiðslu. Í hátísku er yfirleitt ekki hægt að taka við pöntunum seinna.“

Á þessum tíma hafði umfjöllun um tískusýningar í fjölmiðlum aukist töluvert og hinn almenni borgari var farinn að sjá tískusýningar á netinu á síðum eins og Vogue.com. Tíu árum áður voru það fyrst og fremst tískuritstjórar og kaupendur stærstu tískuvöruverslana sem vissu hvað var að gerast á sýningarpöllunum. Aðrir höfðu hvorki aðgang að tískusýningunum sjálfum né gátu séð þær á netinu. Þegar Moda varð til höfðu fyrstu fatanetverslanirnar náð fótfestu og því voru margir orðnir vanir því að kaupa tískufatnað á netinu án þess að máta fötin.

„Áður en ég byrjaði hjá Moda vann ég hjá Gilt sem er ein af afsláttarsíðunum. Þær urðu mjög stórar á árunum 2008 og 2009. Þær voru að selja tísku frá síðasta tímabili eða nokkrum árum áður á 70-80% afslætti. Þá byrjuðu margir að kaupa tísku í fyrsta skipti á netinu án þess að hafa mátað. Á sama tíma er hagkerfið á uppleið og hönnuðirnir ólmir í að gera eitthvað sem var ekki bara á afslætti. Þannig að þetta var frábær tímasetning,“ segir Áslaug.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .