Eiginfjárstaða Kvosar hf., sem m.a. er móðurfélag Prentsmiðjunnar Odda, var neikvæð um 2,9 milljarða króna í lok árs 2009 samkvæmt ársreikningi félagsins sem skilað var til ársreikningaskrár 22. júní sl. Tap af rekstri félagsins nam rúmlega þremur milljörðum króna en nam á árinu 2008 rúmlega fjórum milljörðum. Tap á árunum 2008 og 2009 var samkvæmt samstæðureikningi rúmlega sjö milljarðar króna. Í lok árs 2009 voru heildarskuldir 8,8 milljarðar og virði eigna 5,9 milljarðar.

Fasteignir á 1,9 milljarða

Endurskoðendur félagsins, Þorvarður Gunnarsson og Ágúst Heimir Ólafsson frá Deloitte, gera fyrirvara við undirritun sína að því er fram kemur í ársreikningi. Ástæður þess eru meðal annars að stjórnendur Kvosar hf. telja að fasteignir félagsins hafi ekkert rýrnað í verði frá því að þær voru endurmetnar árið 2007. Í fyrirvara Þorvarðs og Ágústs Heimis segir orðrétt: "Í árslok 2007 var framkvæmt sérstakt endurmat á fasteignum og lóðum dótturfélagsins Kvos ehf. (áður Bylgjuhúsa ehf.) að Köllunarklettsvegi 1 í Reykjavík. Stjórnendur félagsins telja að ekki hafi orðið virðisrýrnun á fasteignum og lóðaréttindum félagsins og því ekki fært þau niður eða óskað eftir verðmati óháðra matsmanna. Við teljum í núverandi efnahagsumhverfi og miðað við spár Seðlabanka Íslands um lækkun fasteignaverðs að vísbending sé um virðisrýrnun á lóðaréttindum félagsins. Bókfært verð umræddra eigna er 1,9 milljarðar króna í árslok 2009." Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi 17. september 2010.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun, fimmtudag. Meðal annars efnis í blaði morgundagsins er:

  • Lítil velta hefur verið með bréf minni félaga í Kauphöll
  • Íbúðalánasjóður keypti lánasöfn af gömlu bönkunum
  • Samningsviðræður við skilanefndir gömlu bankanna í strand
  • Rannsókn á Sparisjóðabankanum lokið
  • Horn og Reginn verða skráð á hlutabréfamarkað
  • Allir sýknaðir í Exeter-málinu
  • Inngrip Seðlabankans skýrasta vísbending um leka í gjaldeyrishöftum
  • Áætlaðar fjárfestingar í orkuiðnaði yfir 900 milljarðar
  • Viðtal við Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka