Tvær leiðir eru færar þegar nýrri stofnun til að rannsaka og saksækja í efnahagsbrotamálum verður komið á fót. Þetta er niðurstaða nefndar sem fjallaði um breytt skipulag og tilhögun vegna efnahagsbrotamála. Hanna Birna Kristjánsdóttir kynnti skýrsluna í ríkisstjórn í morgun. Ný stofnun mun leysa embætti sérstaks saksóknara af hólmi.

Önnur leiðin er sú að byggja upp nýja efnahagsbrotastofnun á grunni embættis sérstaks saksóknara sem annist að lágmarki rannsóknir flóknari og umfangsmeiri efnahagsbrota og fari jafnframt með ákæruvald á lægra ákæruvaldsstigi í þeim málaflokkum sem þar eru rannsökuð. Það embætti hefði jafnframt með höndum verkefni tengd peningaþvætti auk verkefna tengd upptöku ólögmæts ávinnings.

Komi til þess að ákærumeðferð verði að stærstum hluta færð frá ríkissaksóknara telur nefndin að æskilegt væri að setja á stofn tveggja stoða lögreglu og saksóknarembætti á lægra ákæruvaldsstigi sem annaðist málshöfðanir í málum sem ríkissaksóknari annast nú málshöfðun í. Önnur stoð þessa embættis yrði rannsókn- og málshöfðun í flóknum og umfangsmiklum auðgunar- og efnahagsbrotamálum.

Hin leiðin er sú að sameina starfsemi skattrannsóknarstjóra og embættis sérstaks saksóknara í nýtt rannsókna og ákæruembætti á sviði skattalaga- og efnahagsbrotamála. Með því yrði til öflug tveggja stoða stofnun (eða eftir atvikum þriggja stoða ef málshöfðunarheimildir verða fluttar til stofnunarinnar frá ríkissaksóknara) sem byggi að þeirri þekkingu og reynslu sem orðið hefur til hjá skattrannsóknarstjóra og embætti sérstaks saksóknara á síðustu árum og áratugum. Með slíkri sameiningu skyldra verkefna tveggja eða eftir atvikum þriggja stofnana, muni draga úr tvíverknaði, málsmeðferðartími styttast og það ásamt öðrum fjárhagslegum samlegðaráhrifum hafa í för með sér aukna skilvirkni og hagræðingu. Með skattalagabrot yrði þá að öllu leyti farið að hætti sakamálalaga og viðurlög yrðu ýmist í formi lögreglustjórasekta eða refsing ákveðin af dómara.

Þá telur nefndin nauðsynlegt, hvernig sem stofnanakerfi ákæruvalds og lögreglu verði að öðru leyti háttað, að komið verði á lögbundinni samvinnu og samstarfi efnahagsbrotastofnunar við aðrar stofnanir á sviði eftirlits og rannsókna, með mun ríkari og markvissari hætti en nú er.