*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 21. júlí 2018 14:11

Moody‘s breytir horfum Ríkissjóðs

Matsfyrirtækið Moody‘s hefur breytt horfum lánshæfismats Ríkissjóðs úr stöðugum í jákvæðar, og staðfest A3 einkunn hans.

Ritstjórn
Matsfyrirtækið Moody's er eitt þriggja slíkra fyrirtækja, sem samanlagt ráða yfir um 95% markaðarins fyrir lánshæfiseinkunnir.

Matsfyrirtækið Moody‘s breytti í gærkvöldi horfum fyrir lánshæfiseinkunnir Ríkissjóðs Íslands úr stöðugum í jákvæðar, auk þess að staðfesta lánshæfiseinkunnina A3, en einkunnin var hækkuð í A3 í september 2016. Þetta kemur fram í tilkynningu frá seðlabankanum.

Ástæðan fyrir hækkuninni 2016 var sögð losun fjármagnshafta og lausn aflandskrónuvandans, en jákvæð þróun þeirra mála hefur haldið áfram síðan.

Forsendur fyrir breytingunni eru einkum tvær:

Sú fyrri er aukinn þróttur hagkerfisins í ljósi bættrar erlendrar stöðu þjóðarbúsins, stöðugri hagvaxtar og vaxandi styrkleika bankakerfisins.

Sú seinni er sú að horfur eru á því að skuldastaða ríkisins verði betri en væntingar stóðu til.

Þá er staðfesting á einkunninni A3 sögð endurspegla jafnvægi á milli ofangreindra jákvæðra þátta og áskorana sem felast m.a. í smæð og tiltölulegri einhæfni hagkerfisins, þeirri óvissu sem ferðaþjónustan stendur frammi fyrir, og getu hennar til að takast á við hægari en sjálfbærari vöxt, áskorunum varðandi samkeppnishæfni í ljósi komandi kjarasamninga og viðvarandi hættu sem stafar af ýktum fjármagnshreyfingum.