Lausn á Icesave deilunni er mikilvægur þáttur þegar lánshæfi Íslands er metið. Þetta segir Kathrin Muehlbronner greinandi hjá alþjóðlega matsfyrirtækinu Moody's í London í samtali við Bloomberg fréttaveituna í dag. Með öðrum orðum mundi jákvæð niðurstaða í samningaviðræðunum hafa jákvæð áhrif að hennar mati. Meiri líkur séu á betri lánshæfiseinkunn ef tengslin við alþjóðlega lánamarkaði séu í lagi. „Hvort þetta hafi strax áhrif á lánshæfiseinkunnina ræðst svo af skilmálum samkomulagsins," segir Muehlbronner.

Í frétt Bloomberg segir að verið sé að afla þessu nýja samkomulagi breiðari pólitísks stuðnings - út fyrir raðir stjórnarflokkanna. Vitnað er í viðtal við Bjarna Benediktsson, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem sagði í gær að hann vissi að hagstæðari Icesave-samningur lægi á borði samninganefndarinnar. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, er sagður hafa gefið í skyn að samtökin myndu styðja nýtt samkomulag.