Alþjóðlega matsfyrirtækið Moodys Investors Service hefur ákveðið að lækka mat sitt á fjárhagslegum styrkleika Glitnis í C, en staðfestir A1/P-1 lánshæfiseinkunnir og segir horfur stöðugar, segir í tilkynningu.

Fjárhagslegur styrkleiki bankans var tekinn til athugunar til hugsanlegrar lækkunar í apríl 2006 og kemur lækkunin í kjölfar kaupa Glitnis á 68% hlut í finnska fjármálafyrirtækinu FIM.

Í rökstuðningi Moodys kemur fram að ákvörðunin um að lækka einkunn Glitnis fyrir fjárhagslegan styrk niður í C er tekinn í kjölfar þess að áhætta bankans hefur aukist.

"Aukin áhætta tengist meðal annars atriðum tengdum stjórnarskipan bankans, lánveitingum til tengdra aðila, og áhættu tengdri því að Glitnir hefur staðið í mörgum stórum yfirtökum á tiltölulega stuttum tíma," segir Moodys.

Matsfyrirtækið telur kaupin ekki hafa áhrif á lánshæfiseinkunnir Glitnis. Einkunn fyrir skuldbindingar bankans til langs tíma er A1 og fyrir skammtímaskuldbindingar P-1.