Bandaríski fjárfestingabankinn Morgan Stanley hefur gert sátt við bandaríska dómsmálaráðuneytið um greiðslu sektar upp á 2,6 milljarða dala, andvirði um 340 milljarða króna vegna útgáfu skuldabréfavafninga fyrir hrunið 2008.

Í frétt CNN segir að í tilkynningu bankans komi fram að sektin muni leiða til þess að hagnaður hans árið 2014 verði helmingi minni en ella.

Er Morgan Stanley gefið að sök að hafa vafið lélegum húsnæðislánum í skuldabréfavafninga án þess að geta nægilega um lítil gæði undirliggjandi lánanna.

Fleiri bankar hafa gert sambærilegar sættir við bandaríska dómsmálaráðuneytið. Citigroup mun greiða sjö milljarða dala, Bank of America 17 milljarða og JPMorgan Chase 13 milljarða dala.