Viðskiptablaðið kannaði rekstrarafkomu stærstu lögfræðistofa landsins. Í flestum tilfellum virðist afkoma lögmannsstofanna
hafa batnað verulega eftir bankahrun og því græða þær vel á yfirstandandi efnahagskreppu og margháttuðum afleiðingum hennar. Stærstu stofur landsins skiluðu allar hundruð milljóna króna hagnaði á árinu 2009.

Af þeim stofum sem hafa skilað reikningi fyrir árið 2009 þénaði Mörkin lögmannsstofa næstmest, eða 193 milljónir króna. Að meðaltali störfuðu 15,5 manns á Mörkinni á því ári. Lagt er til í ársreikningi stofunnar að öll upphæðin verði greidd út til sjö hluthafa hennar sem arður á árinu 2010. Það er í samræmi við ráðstöfun rekstrarhagnaðar hennar árin á undan. Árið 2009 voru greiddar út 117,1 milljón króna arður vegna frammistöðu Markarinnar árið áður, þegar stofan hagnaðist um sömu upphæð. Árið 2008 greiddu eigendurnir sér 135 milljónir króna út í arð vegna 136 milljóna króna jákvæðrar rekstrarafkomu á árinu 2007.

Verja banka- og athafnamenn

Á meðal sjö eigenda Markarinnar eru landsþekktir lögmenn á borð við Gest Jónsson, Ragnar H. Hall, Hörð Felix Harðarson, Gísli Guðna Hall og Einar Þór Sverrisson. Þeir hafa allir verið áberandi í málum tengdum rannsóknum á helstu banka- og athafnamönnum þjóðarinnar fyrir bankahrun.

Gestur var sem kunnugt er lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í Baugsmálinu og hefur komið fram sem lögmaður Sigurðar Einarssonar, fyrrum stjórnarformanns Kaupþings, í rannsóknum á störfum hans fyrir bankann. Hörður Felix er lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrum forstjóra Kaupþings, og Gísli Guðni er lögmaður Hannesar Smárasonar. Ragnar H. Hall hefur komið fram sem lögmaður bæði Lárusar Welding, fyrrum forstjóra Glitnis, og Pálma Haraldssonar athafnamanns en Einar Þór hefur verið náinn samstarfsmaður Pálma árum saman. Hann situr meðal annars í stjórn Eignarhaldsfélagsins Fengs, helsta eignarhaldsfélags Pálma.

Ítarlega úttekt á rekstrarafkomu stærstu lögfræðistofa landsins er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.