*

mánudagur, 27. september 2021
Erlent 8. september 2021 09:18

Morrisons verði selt á uppboði

Þriggja mánaða barátta tveggja fjárfestingafélaga um verslunarkeðjuna Morrisons mun enda með uppboði í næsta mánuði.

Ritstjórn
epa

Morrisons hefur tilkynnt um að barátta tveggja fjárfestingafélaga um að taka yfir bresku matvörukeðjan verði útkljáð með uppboði í næsta mánuði. Financial Times greinir frá.

Bandaríska fjárfestingarfélagið Clayton, Dubilier & Rice (CD&R) hefur boðið 10,2 milljarða punda í Morrisons, eða 2,85 pund á hlut, en upphaflega tilboð félagsins í júní hljóðaði upp á 2,30 pund á hlut.

Hópur fjárfesta leiddur af Fortress Investment Group hefur þó ekki gefist upp á taka yfir matvörukeðjuna en Fortress bauð 2,70 pund á hlut í síðasta mánuði. Félagið, sem er í eigu SoftBank, sagðist vera að meta valkosti sína eftir að CD&R lagði fram nýtt tilboð í lok síðasta mánaðar.

Breska yfirtökueftirlitið (e. The Takeover Panel) greip inn í leikinn þar sem hvorugur bjóðandi hefur lýst yfir lokatilboði eftir nærri þriggja mánaða ferli. Þetta er í annað skipti á stuttum tíma sem stofnunin hefur kallað eftir uppboði á stóru fyrirtæki en barátta framtakssjóðsins Carlyle og sígarettuframleiðandans Philip Morris um fyrirtækið Vectura, sem framleiðir og þrórar meðferðartæki fyrir öndunarfærasjúkdóma, endaði með sama hætti í sumar.

Hlutabréfaverð Morrisons, fjórðu stærstu verslunarkeðju Bretlands, stendur nú í 2,91 pundi, eða um 2% yfir genginu í yfirtökutilboði CD&R. Gengi Morrisons hefur hækkað um 66% frá því í júní þegar CD&R lagði fram sitt fyrsta tilboð.