Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segist ekki hafa séð nein rök fyrir hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu í landinu að því er fram kemur í Morgunblaðinu .

Í stefnuræðu sinni á landsfundi Vinstri grænna skaut Katrín fast á Sjálfstæðisflokkinn.

„Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert annað en að hækka skatta á almenning? Eða var það ekki Sjálfstæðisflokkurinn í félagi við Framsókn sem hækkaði virðisaukaskatt á matvæli á síðasta kjörtímabili? Er það ekki Sjálfstæðisflokkurinn og fylgitungl hans sem boða nú veggjöld í massavís? Er það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem ætlaði að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu? Sjálfstæðisflokkurinn getur lítið sagt um aðra. Hann er skattaflokkur,” sagði Katrín.

„Við verðum að ná sátt um stærstu málin. Núna eru fram undan kjaraviðræður við opinbera starfsmenn. Til að tryggja stöðugleika þurfum við að ná víðtækri sátt um skattkerfið, heilbrigðiskerfið, skólakerfið o.fl. en þetta helst allt saman í hendur,” sagði Katrín jafnframt í stefnuræðu sinni.

„Áhersla okkar í skattamálum verður að leggja aðeins meira á þá allra tekjuhæstu og eignamestu og sækja afnotagjöld af auðlindum þjóðarinnar,” hefur Morgunblaðið eftir Katrín.