*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 2. júlí 2017 16:47

Mótframlag atvinnurekenda aukið

Frá og með þessum mánaðamótum getur launafólk fengið aukið mótframlag frá atvinnurekendum sínum til að setja í séreignasparnað.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í kjarasamningum þeim sem gerðir voru í byrjun síðasta árs var sett ákvæði um að mótframlag atvinnurekenda á almenna vinnumarkaðnum í lífeyrissjóði yrði hækkað í þremur skrefum upp um 3,5 prósentustig þannig að heildargreiðslan yrði sú sama og er hjá hinu opinbera.

Fór mótframlagið úr 8% í 8,5% í fyrra, en núna þegar það hækkar upp í 10% tekur gildi sú regla að launamenn geta ákveðið að ráðstafa hluta þessa mótframlags í séreignasparnað í stað þess að féð fari í almenna sjóðinn hjá sínum lífeyrissjóði. Þegar framlagið hækkar svo eftir ár geta launamenn enn fremur ákveðið að öll viðbótin, 3,5 prósentustig, fari í séreignasjóð, að því er Vísir greinir frá.

Launamenn þurfa að hafa samband við sinn lífeyrissjóð í mánuðinum til að ákveða ráðstöfun viðbótarframlagsins, en það sem sett er í séreignasparnað verður hægt að leysa út fimm árum fyrir almennan lífeyristökualdur.

,,Það er mikilvægt að taka það líka fram að þetta er annað en þessi hefðbundni séreignarsparnaður sem við þekkjum í kerfinu nú þegar," segir Henný Hinz deildarstjóri hagdeildar ASÍ. ,,Þetta er í raun nýr valkostur sem hefur verið kallaður tilgreind séreign.“