Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, segir í Fréttablaðinu í dag að hann hefði viljað að skólinn sameinaðist Háskóla Íslands. Hann segir að staðan skólans sé þröng. Verið sé að draga saman um 70 milljónir í rekstrinum . „Fjárlagarammi okkar er 630 milljónir svo það er engin smá blóðtaka fyrir okkur," segir hann í Fréttablaðinu.

Yfirstjórn Landbúnaðarháskólans fundaði með þingmönnum Norðvesturkjördæmis um stöðu skólans. Á fundinum var meðal annars Haraldur Benediktsson, fyrrverandi formaður Bændasamtakanna sem í dag er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

„Á þessum fundi með þingmönnum Norðvesturkjördæmis lýstum við yfir miklum vonbrigðum með þetta enda viljum við sameinast háskólanum og teljum að það sé best í stöðunni þegar til lengri tíma er litið. Ég er viss um að Haraldur Benediktsson vill okkur vel en okkur greinir á um leiðir til að takast á við framtíðina," segir Ágúst og bendir á að vel hafi tekist til með sameiningar skóla í öðrum löndum, eins og Danmörku og Finnlandi.

Draga frá framlögu til landbúnaðarins

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar um Landbúnaðarháskólann í pistli í Fréttablaðinu í dag. Hann segir að það hafi verið ill tíðindi þegar Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hafi tilkynnt í vikunni að sameiningar skólanna væru komnar í saldpækil.

„Mótspyrna Bændasamtakanna virðist hafa ráðið mestu um það. Þar er sannarlega ekki við menn úti í bæ að eiga sem skella má skollaeyrum við. Tillögur ráðherrans voru vel rökstuddar og í þágu almannahagsmuna. Þeir urðu að víkja fyrir öðrum hagsmunum. Annað hvort verða skattgreiðendur að borga þann brúsa eða háskólakennarar með lægri launum. Eðlilegt hefði verið að stilla Bændasamtökunum upp andspænis þeim kosti að kostnaðurinn yrði dreginn frá framlögum til landbúnaðarins. Það hefur ekki þótt við hæfi."