Tveggja milljarða heimild MP banka til hlutafjáraukningarrann út um áramótin sem gerir það að verkum að áform um stækkun efnahags bankans hafa verið lögð á ís. Þegar hefur verið ráðist í hagræðingaraðgerðir innan bankans.

Breyttar forsendur

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, segir í samtali við Viðskiptablaðið að upphaflegar áætlanir sem fólu í sér að bankinn myndi vaxa hratt hafi gengið vel.

„Það var fyrirséð að það þyrfti aukið hlutafé til að styðja við þennan vöxt og samþykkti hluthafafundur á sínum tíma að auka hlutafé um allt að tvo milljarða króna. Það var lagt upp með að núverandi hluthafar myndu skrá sig fyrir helming af þeirri fjárhæð og svo yrði sótt til mögulegra nýrra fjárfesta á gengi sem var 1 til 1,2. Seint á síðasta ári kemur í ljós að þátttaka helstu núverandi hluthafa bankans mun ekki raungerast.“

Spurður hvað valdi því að núverandi hluthafar vilji ekki ganga lengra í að styðja við frekari vöxt bankans segir hann að það megi að einhverju leyti rekja til breyttra forsendna. „Ég minni á það að stór hluti af hluthöfum bankans eru einstaklingar þó að það séu félög utan um eignarhlut þeirra. Aðstæður einstaklinga breytast og ekkert við því að segja,“ segir Sigurður Atli. Hann segir áhuga hafa verið fyrir hendi hjá hluta hópsins auk utanaðkomandi aðila að fjármagna frekari vöxt. „En það er ekki af þeirri stærðargráðu að það hafi verið gefið út nýtt hlutafé vegna þess. Þetta þýðir það að upphaflegar áætlanir um hraðan vöxt efnahagsreiknings og stækkun bankans með því að setja inn aukið fjármagn sem og skráning hans á markað á þessu ári eru ekki raunhæfar í dag. Við því er verið að bregðast.

Þetta þýðir einnig að á fjórða ársfjórðungi í fyrra aðlöguðum við efnahag bankans að breyttum forsendum og fellur til umtalsverður hagræðingarkostnaður samhliða því,“ segir Sigurður Atli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .