MP banki var með mesta hlutdeild á skuldabréfamarkaði á nýliðnu ári. Þetta er þriðja árið í röð sem hlutdeild bankans er mest á þessu sviði, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Heildarvelta með skuldabréf nám 2.602 milljörðum króna í fyrra. Það jafngildir 10,3 milljörðum króna meðalveltu á dag og er tæplega 10% samdráttur á milli ára.

Af heildarveltunni nam hlutdeild MP Banka um 1.339 milljörðum króna, sem jafngildir 25,7% af allri veltu skuldabréfa í Kauphöllinni. Viðskipti með skuldabréf voru á sama tíma yfir 97% heildarviðskipta í Kauphöllinni.

Íslandsbanki fylgdi á hæla MP Banka með 23,1% hlutdeild. Landsbankinn var með 19,3% hlutdeild á skuldabréfamarkaðnum.

Allar skuldabréfavísitölur Kauphallarinnar hækkuðu á árinu. Mest hækkaði 5 ára verðtryggða vísitalan, sem fór upp um 19%. Verðtryggð skuldabréf til tíu ára hækkuðu á sama tíma um 17,5%.