MP Fjárfestingarbanki hf. er nú að skoða að kom á fót starfsemi fyrirtækisins í Bretlandi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ráðgert að opna skrifstofu þar í haust. Sigurður Valtýsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, vildi þó ekkert láta hafa eftir sér um málið að svo stöddu.

MP Fjárfestingarbanki hf. hefur starfsleyfi til rekstrar lánafyrirtækis skv. 3. tl. 1. mgr. 4.gr. laga nr. 161/2002. og er aðili að Kauphöll Íslands. Árið 2004 var fyrsta heila starfsár félagsins sem fjárfestingarbanka, en leyfi til þeirrar starfsemi fékkst þann 15. október 2003. Rekstur bankans gekk afar vel á árinu enda ytri skilyrði á fjármagnsmarkaði hagstæð.bankinn hefur stöðugt verið að vaxa og var hagnaður MP Fjárfestingarbanka hf. 1.013,5 milljónir króna eftir skatta á árinu 2004.

Eigið fé bankans um síðustu áramót var 1.919 milljónir króna, en var 1.001 milljónir króna áramótin áður. Hlutafé bankans var 285 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall MP Fjárfestingarbanka hf. var 21,1% en má lægst vera 8% samkvæmt lögum.