MP Banki og Íslensk verðbréf hafa enn ekki greitt út allar eignir í peningamarkaðssjóðum sínum. Það hafa hins vegar aðrir bankar gert. Peningamarkaðssjóður Byrs var með hæsta útgreiðsluhlutfallið eða 94,9% en Peningabréf Landsbankans voru með lægsta útgreiðsluhlutfallið eða 68,8%.

Þetta er meðal þess sem dregið er fram í skýrslu viðskiptaráðherra um peningamarkaðs- og skammtímasjóði. Skýrslan var lögð fram á Alþingi að beiðni nokkurra þingmanna með Kristinn H. Gunnarsson, þingmann utan flokka, í broddi fylkingar.

Þingmennirnir lögðu fram ítarlegar spurningar um starfsemi peningamarkaðssjóðanna en í skýrslunni er fæstum þeirra svarað með vísan til þagnarskylduákvæða í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Í skýrslunni má m.a. finna samantekt á úgreiðsluhlutfalli sjóðanna, en þar er tekið fram að peningamarkaðssjóðir ÍV og MP séu enn í slitaferli og að hlutdeildarskírteinishafar fá greitt reglulega inn á reikninga þar til engar eignir verða eftir í sjóðunum.

Útgreiðsluhlutföll annarra sjóða er sem hér segir: Peningabréf Landsbankans 68,8%, Peningamarkaðssjóður Kaupþings 85,3%, Peningamarkaðssjóður Glitnis (Sjóður 9) 85,12%, Skammtímasjóður Kaupþings 75,1%, Peningamarkaðsjóður Byrs 94,9% og Peningamarkaðssjóður SPRON 85,52%.

Skýrsluna í heild má finna hér.