Breska fjölmiðlaeftirlitið, Ofcom, hefur sektað MTV-sjónvarpsstöðina um 255 þúsund pund (tæpar 38 milljónir íslenskar) fyrir að sjónvarpa móðgandi orðfæri og dónalegu efni á óleyfilegum sýningartíma.

Sjónvarpsefnið sem um ræðir var til sýningar fyrir klukkan 21 á kvöldin á MTV-stöðvunum, MTV, MTV UK, MTV France, MTV Hits og TMF. Sektin er tilkomin vegna síendurtekinna brota MTV-stöðvanna á reglum Ofcom sem tiltaka að ekki megi nota gróft orðalag á ákveðnum sýningartímum, og þá sérstaklega á þeim tímum þegar börn gætu verið að horfa. Í efninu sem um ræðir má heyra orð sem varla er við hæfi að endurtaka hér. Það byrjar á f og endar á c og er notað í ýmsum útgáfum og af ýmsu tilefni. Í sumum tilvikum var orðinu „mother“ skeytt framan við f-orðið í þessu tiltekna sjónvarpsefni.

Orðljót ungfrú Marsh Ofcom bárust hátt í tuttugu kvartanir yfir myndbandi með Aphex Twin sem birt var á TMF klukkan 20 mínútur yfir átta að kvöldi til í júní 2006 en í myndbandinu er munnsöfnuður flytjenda vægast sagt ógeðfelldur og ekki við hæfi barna. Á TFM birtist einnig dagskrárbrot úr raunveruleikaþætti sem kallast Totally Jodie Marsh.

Brotin birtust með reglulegu millibili frá klukkan níu á morgnana og fram eftir degi yfir mánaðartímabil. Ungfrú Marsh notar f-orðið í því dagskrárbroti ásamt öðrum ljótum munnsöfnuði. Ofcom tilgreindi fleiri þætti þar sem orðbragð þótti brjóta í bága við reglur eftirlitsins og hafði eftirlitsstofnunin fengið fjölmargar kvartanir vegna dónalegs efnis á stöðvum MTV.

Í dómsúrskurðinum segir að Ofco-nefndin hafi ákveðið að hafa sektina háa í ljósi alvarleika málsins og þess að fyrri aðvörunum af hennar hálfu, fyrir árið 2006, hafi ekki verið sinnt af MTV. Forsvarsmenn MTV hafa lofað bót og betrun.