Forsvarsmenn breska vörumerkisins Mulberry hafa tilkynnt breytingu á markaðsetningu eftir lélega jólatímabils sölu. Fyrirtækið mun selja ódýrari handtöskur. Verðhækkanir á vörum fyrirtækisins í fyrra ollu miklu sölutapi. Handtöskur fyrirtækisins kostuðu þá allt að 5000 pundum eða um milljón íslenskra króna.

Sala á fyrsta ársfjórðungi 2014 nam 14 milljónum breskra punda hjá fyrirtækinu í samanburði við 26 milljónir punda á sama tímabili árið 2013. Mulberry tilkynnti í lok janúar að jólasala hefði verið mjög léleg og í framhaldi af því sagði Bruno Guillon framkvæmdastjóri fyrirtækisins af sér í mars.

Guillon haði hækkað verð til að undirstrika lúxus vörunnar, sem leiddi til þess að fyrirtækið missti viðskiptavinina sem voru tilbúnir til að borga 500 pund fyrir handtösku en ekki mikið meira en það. Godfrey Davis, starfandi stjórnarformaður fyrirtækisins, sem rak fyrirtækið í 10 ár þangað til árið 2012, kynnti í apríl nýja vörulínu þar sem verðbilið er frá og með 495 pundum.

Davis sagði í viðtali við The Guardian að stjórnarmenn Mulberry hafi gert mistök með því að markaðsetja vörurnar fyrir ríka Kínverja og Miðausterlenska viðskiptavini og hefði með því misst breska viðskiptavini. Hann sagði að það yrðu skammtíma afleiðingar af því að lækka verð á vörulínum fyrirtækisins, en hins vegar væri það nauðsynlegt til að halda í breska viðskiptavini en 60% af heildarsölu Mulberry er í Bretlandi.