Forstjórar þeirra þriggja fasteignafélaga sem skráð eru á markað ræddu stöðu og horfur á markaði með atvinnuhúsnæði í fylgiriti Viðskiptablaðsins um fasteignamarkaðinn sem kom út fyrir helgi. Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, segir þau meta stöðuna nokkuð góða.

„Það er mikil eftirspurn eftir húsnæði í flestum flokkum og sérstaklega eftir hágæða skrifstofuhúsnæði. Verð á markaðnum eru eðlileg, það er ekki neinn óeðlilegur verðþrýstingur, hvorki upp né niður. Það mun taka einhvern tíma að endurheimta jafnvægi í hótelgeiranum en okkur líst mjög vel á þann markað til framtíðar. Þeir erfiðleikar sem nú eru uppi eru tímabundnir og áhrif þeirra munu hugsanlega vara út árið 2024, eða þar um bil. Nýtingarhlutfall okkar var hátt fyrir faraldur og fer hækkandi. Lágvaxtaumhverfið undanfarið hefur jafnframt breytt gríðarlega miklu til hins betra. Við höfum endurfjármagnað skuldbindingar og fest hagstæðari kjör, svipuð og stór sveitarfélög fá," segir Helgi.

Öll hótel í skilum

Fosshótel Reykjavík var í héraði gert að greiða helming ógreiddrar leigu til leigusala síns, Íþöku ehf., en það sem eftir stóð var látið niður falla vegna þeirra fordæmalausu aðstæðna sem veirufaraldurinn skapaði. Nokkuð hefur verið rætt um hugsanleg áhrif niðurstöðu dómstóla í Fosshótelsmálinu á leigusamninga þeirra, verði niðurstaða í héraði staðfest í Hæstarétti.

Helgi efast um að niðurstaða dómstóla í Fosshótelsmálinu hafi áhrif á samninga þeirra við leigutaka, þegar hafði verið endursamið við leigutaka þegar dómur féll í héraði og eins og staðan er núna eru öll hótel í skilum með leigu hjá félaginu.

„Við sömdum strax við alla okkar leigutaka, þar með talið hótel og veitingastaði, þegar faraldurinn skall á vorið 2020. Við gerðum viðaukasamning við samninga, sem eftir atvikum fólu í sér greiðslufresti, lækkanir, niðurfellingar og tímabundna veltutengingu leigu."

Veðja á þéttingu byggðar

Helgi segir byggð vera að þéttast mikið í Reykjavík, líkt og víða annars staðar. „Það er verið að byggja upp íbúðir nálægt verslunarmiðstöðvum og sterkum atvinnu- og skrifstofusvæðum, sem saman mynda sterka kjarna íbúa, atvinnu, verslunar og þjónustu. Borgarlínan mun síðar tengja þessa kjarna saman og hraða þessari þróun. Við erum á fleygiferð í því að taka þátt í þessari hröðu þróun, bæði með því að selja eignir utan kjarnanna og fjárfesta í eignum innan þeirra. Megnið af okkar eignasafni er í þessum kjörnum og við viljum þétta eignasafnið okkar enn frekar í kringum þá, enda eru þær tekjur sem við höfum af eignum okkar allt að 30% hærri á fermetra í kjörnunum."

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .