Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Stapa lífeyrissjóðs á Akureyri gegn ALMC hf. (sem áður hét Straumur –Burðarás fjárfestingarbanki) sem féll nýverið gæti haft þau áhrif að dauðar kröfur á hendur hinum bönkunum vakni til lífsins á ný. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er þetta þó háð því að bankarnir kjósi að fara í nauðasamninga líkt og ALMC gerði. Verði bankarnir gjaldþrota og þeim í kjölfarið slitið mun dómurinn engin áhrif hafa enda var það forsenda málarekstrar Stapa að ALMC hafi náð nauðasamningum í stað þess að verða gjaldþrota. Sömuleiðis er þetta háð því að Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að jafnvel þótt bankarnir fari leið nauðasamninga muni áhrifin á endurheimtur úr búum þeirra verða óveruleg. Samanlögð upphæð þeirra krafna sem var lýst of seint til slitastjórnar Kaupþings var þannig á bilinu 10-20 milljarðar króna og ljóst er að þær kröfur fást ekki að fullu greiddar enda segir í niðurstöðu Jóns Finnbjörnssonar, dómarans er kvað upp dóminn, að kröfuhafi verði að sæta lækkun kröfu sinnar í samræmi við skilmála nauðasamnings þess er um ræðir hverju sinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.