Háttsettur bandamaður Pútíns, Sergei Mironov, hefur sagt að flokkur hans sé reiðubúinn til að útnefna Pútín sem frambjóðanda flokksins fyrir forsetakosningarnar árið 2012, að því er fram kemur í frétt Financial Times. Þessi yfirlýsing ýtir enn frekar undir þann orðróm að Pútín muni snúa aftur á vettvang stjórnmálanna eftir að hann lætur af embætti forseta í marsmánuði á næsta ári. Mironov stofnaði flokk sinn, Réttlátt Rússland, á síðasta ári og er flokkurinn annar af tveimur á þingi - hinn er Sameinað Rússland - sem eru einna hliðhollastir Rússlandsforseta.

Mironov, sem er auk þess forseti efri deildar rússneska þingsins, lét ummælin falla í samtali við rússnesku fréttastofuna Itar-Tass á mánudaginn. Hann bætti því jafnframt við að hann teldi "öruggt" að stjórnarskrá landsins yrði breytt í kjölfar næstu forsetakosninga og kjörtímabil sitjandi forseta yrði lengt úr fjórum árum í fimm ár - eða jafnvel sjö ár. Slík breyting gæti orðið til þess - að því gefnu að Pútín bjóði sig aftur fram til forseta - að Pútín tæki við völdum sem forseti 2012 og gegndi því embætti í allt að sjö ár, til ársins 2019. Í samtali við rússneska fjölmiðla síðastliðinn júní lýsti Pútín því yfir að hann styddi hugmynd Mironov um að lengja kjörtímabil sitjandi forseta.

Samkvæmt stjórnarskrá Rússlands frá árinu 1993 er forseta óheimilt að sitja í embætti tvö kjörtímabil í röð og hefur Pútín ítrekað sagst ætla að virða það. Hins vegar er ekkert sem kemur í veg fyrir það að hann bjóði sig fram aftur að nokkrum árum liðnum - þegar annar aðili hefur gegnt embætti forseta í millitíðinni. Sergei Ivanov, fyrsti aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, og Dimitri Medvedev, sem er einnig aðstoðarforsætisráðherra, eru að mati flestra stjórnmálaskýrenda taldir líklegastir til að taka við forsetaembættinu af Pútín á næsta ári.

Sérfræðingar um rússnesk stjórnmál telja alls ekki ósennilegt að Pútin muni láta verða af því að snúa aftur í embætti forseta. Vyacheslav Nikonov, stjórnmálaskýrandi með náin tengsl við Kremlarbændur, hefur margoft látið hafa það eftir sér að enda þótt eftirnafn næsta forseta Rússlands muni ekki verða Pútín, þá geti hann engu að síður orðið aftur forseti. "Við erum ekki að nálgast endalok Pútíns-tímabilsins, það er einungis rétt að hefjast," segir Nikonov.