Múrbúðin hefur ákveðið að hætta með timbursölu í Kópavogi. Timbursölunni verður lokað þegar birgðir þar af timbri og annarri grófvöru hafa verið seldar. Ástæða þess er sú að þrátt fyrir að almenn verðlækkun hafi orðið á timbri og grófvöru með innkomu Múrbúðarinnar á þennan markað hafa stærstu kaupendur slíkrar vöru kosið að vera áfram í viðskiptum hjá ráðandi markaðsaðilum. Baldur Björnsson, framkvæmdastjóri Múrbúðarinnar, segir stærstu kaupendur á timbri una sér best í faðmi gömlu fákeppnisaðilana þrátt fyrir að þeir átti sig á að það var innkoma Múrbúðarinnar lækkði verð á markaði. Timbursala Múrbúðarinnar hafi ekki fengið nægilega mikil viðskipti til að standa undir sér.

„Markmið okkar hefur aldrei verið að tapa peningum til að halda niðri verði fyrir þá sem ekki versla við okkur,“ er haft eftir Baldri í tilkynningu frá Múrbúðinni.

Fram kemur í tilkynningunni að timbursala Múrbúðarinnar tók til starfa í október 2010. Frá fyrsta degi bauð hún 12-20% lægra verð á timbri og annarri grófvöru en áður hafði staðið til boða hjá ráðandi markaðsaðilum. Samkeppnin hafi verið lítil í þessum vöruflokki á milli Byko og Húsasmiðjunnar. Þrátt fyrir gríðarlegan taprekstur beggja verslana var brugðist hart við innkomu Múrbúðarinnar með miklu lægri verðum.

Þá segir í tilkynningunni sem fjallar um lokun timbursölu Múrbúðarinnar:

„Í þessu samhengi er rétt að minna á að rannsókn stendur enn yfir hjá Samkeppniseftirlitinu og sérstökum saksóknara á  ætluðu broti Byko og Húsasmiðjunnar á banni samkeppnislaga við samráði keppinauta um verð, gerð tilboða og skiptingu markaða. Fimmtán starfsmenn þessara fyrirtækja voru handteknir í tengslum við húsrannsókn embættanna fyrir tveimur árum.  Fyrirtækin kepptust við að lýsa yfir sakleysi sínu og buðust til að aðstoða við rannsókn málsins, engu að síður hefur Saksóknari þurft að leita til dómstóla til að fá afhend gögn frá Húsasmiðjunni.“