Framleiðsla hófst í dag á íslenskum kattamat í nýrri verksmiðju Murr ehf. á Súðavík og er varan væntanleg í verslanir eftir helgina að því er kemur fram í tilkynningu. Murr ehf. hefur síðustu tvö ár unnið að undirbúningi framleiðslu á íslenskum kattamat.

Vöruþróun og uppsetning verksmiðju á Súðavík hefur gengið vel og afraksturinn hefur nú litið dagsins ljós í hágæða kattamat að því er segir í tilkynningu. Murr ehf. hefur átt samstarf við Norðlenska sláturhúsið á Akureyri og SAH afurðir á Blönduósi í þessu nýsköpunarverkefni sem felst í framleiðslu á verðmætum afurðum úr áður vannýttu hráefni. Fjórir starfsmenn starfa hjá Murr ehf. og vonast er til að þeim fjölgi þegar framleiðslan verður komin á fullan skrið.

Heilfóður fyrir fullorðna ketti og hundasælgæti

Fyrstu vörurnar sem Murr setur á markað eru heilfóður fyrir fullorðna ketti og hundasælgæti. Mjög mikil áhersla hefur verið lögð á að nota einungis hreinar náttúrulegar afurðir og engin uppfyllingar- eða aukaefni. Bragi Líndal Ólafsson fóðurfræðingur og Þorleifur Ágústsson dýralífeðlisfræðingur hafa stýrt þróunarvinnu fyrirtækisins. Unnið er að þróun fjölbreyttrar vörulínu og er meðal annars stefnt að því að þróa fóður sem sérstaklega verður ætlað fyrir unga ketti annarsvegar og eldri ketti hinsvegar.

Mikill áhugi er á því hjá sláturleyfishöfum að Murr taki við áður vannýttu hráefni. Með því er meðal annars mögulegt að lækka förgunarkostnað til muna og auka verðmæti sláturafurða, sem ætti að skila sér í fjárhagslegum ávinningi fyrir bændur.

„Við erum mjög ánægð með að rannsóknir og þróunarstarf fyrirtækisins undanfarin tvö ár séu nú að bera ávöxt. Við höfum lagt mikla áherslu á að framleiðslan sé fyllilega samkeppnishæf í gæðum og verði við innflutta vöru og það verður spennandi að sjá viðbrögð íslenskra gæludýraeigenda við þessum valkosti,“ segir Þorleifur Ágústsson framkvæmdastjóri Murr ehf. í tilkynningu „Við lítum svo á að hér sé um mjög mikilvæga nýsköpun að ræða og það er sérstaklega skemmtilegt að hafa getað unnið að henni hér á Vestfjörðum sem hafa átt undir högg að sækja í nýsköpun undanfarin misseri.“

Kattamaturinn Murr verður á boðstólum í verslunum Bónuss og 10/11 frá og með mánudeginum 8. júní næstkomandi. Umboðs- og dreifingaraðili Murr ehf. er Fisksöluskrifstofan ehf.