Alessio Rastani gjaldeyris- og hlutabréfamiðlari var í viðtali við Breska ríkisútvarpið - BBC í dag. Í viðtalinu segir Rastani að hlutabréfamarkaðurinn á evrusvæðinu og evran myndu hrynja því markaðir stjórnuðust þessa dagana af ótta fjárfesta.

Rastani sagði að gáfuðu peningarnir (e. smart money) sem væru í höndum stórra vogunarsjóða og stofnannafjárfesta færu úr evrópskum hlutabréfum í tryggari fjárfestingar. Rastani sagði bandarísk ríkisskuldabréf og Bandaríkjadal vera þar á meðal. Hann sagði að vogunarsjóðirnir vissu að hlutabréfamarkaðurinn í Evrópu myndi hrynja.

Rastani sagði að ríkisstjórnir stjórnuðu ekki heiminum, heldur bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs.

Fréttamaður BBC lýsti undrun sinni og sagði alla í myndveri sjónvarpsstöðvarinnar vera gapandi vegna ummæla miðlarans. Rastani lét það ekki á sig fá og útskýrði skuldakreppuna í Evrópu sem vaxandi krabbamein.