Ráðstefnuborgin Reykjavík er í 2. til 3. sæti á lista Global Sustainability Index (GDS) 2016 sem mælir sjálfbærni meðal mikilvægra áfangastaða til ráðstefnu og fundarhalds. Borgunum sem eru mældar fjölgar ár frá ári og í ár voru þær 35 talsins í 5 heimsálfum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Markmið vísitölunnar, sem er sú eina sinnar tegundar í heiminum, er að sýna væntanlegum viðskiptavinum hversu mikið vægi sjálfbærni hefur í ráðstefnu- og fundarhaldi viðkomandi borga. Vísitalan skoðar jafnt umhverfisstefnu borganna sjálfra sem og frumkvæði fyrirtækja sem þjónusta ráðstefnu- og fundargesti í umhverfismálum sem í tilfelli Reykjavíkur eru aðildafélagar  Ráðstefnuborgarinnar Reykjavík (Meet in Reykjavík).

Ráðstefnuborgin Reykjavík hefur klifið þennan lista hratt undanfarin ár en árið 2013 var hún í 18. sæti af 20 sætum sem þá voru mæld. Ráðstefnuborgin Reykjavík deilir nú 2. til 3. sæti með Kaupmannahöfn. Í næstu sætum á eftir koma Zürich, Stuttgart og Uppsalir. Gautaborg er í efsta sæti og hefur leitt þennan lista undanfarinn ár.

„Þetta er frábær árangur og eiginlega langt umfram það sem við þorðum að vona. Við vissum að værum að færast upp listann þar sem Reykjavíkurborg og aðrir aðildarfélagar hafa sýnt frumkvæði og ábyrgð við stefnumótun og innleiðingu umhverfisstaðla. Um leið og það er ánægjulegt að sjá aukna sjálfbærni þá er líka mikilvægt að halda áfram að gera vel og muna að við getum alltaf gert betur,“ segir Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ráðstefnuborgarinnar Reykjavík (Meet in Reykjavík).