*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Innlent 28. janúar 2020 11:35

Nærri 40% fleiri um flugvöll Akureyrar

Millilandafarþegum um Akureyrarflugvöll fjölgar stöðugt, en nú opnast leið fyrir íbúa norðurlands að fljúga til Amsterdam.

Ritstjórn
Á leið inn til lendingar á Akureyrarflugvelli, en mikil fjölgun hefur verið síðustu ár í millilandafarþegum sem fara um flugvöllinn.
Haraldur Guðjónsson

Fjölgun millilandafarþega um Akureyrarflugvöll hefur verið mikil undanfarin ár að því er Markaðsstofa Norðurlands bendir á uppúr tölum Isavia. Samkvæmt þeim nam fjölgunin árið 2017 24% frá fyrra ári, árið 2018 var fjölgunin enn meiri eða 70% miðað við fyrra ár og árið 2019 nam fjölgunin 38% miðað við árið á undan.

Nú styttist svo í að ferðamenn á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel komi í fyrstu vetrarferð ársins til Norðurlands, en alls verða ferðirnar 8 talsins frá 14. febrúar til 9. mars. Sem fyrr er það flugfélagið Transavia sem annast flugið.

Fjölgun í heimsóknum erlendra ferðamanna yfir vetrartímann er að mati markaðsstofunnar kærkomin innspýting fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu, sem segir þennan stöðuga og mikla vöxt merki um þann árangur sem hafi náðst í markaðssetningu áfangastaðarins Norðurlands.

Jafnframt undirstriki hann mikilvægi þess að ráðist verði í uppbyggingu á Akureyrarflugvelli til framtíðar. Auk þess er bent á að flugferðir Voigt Travel séu tækifæri fyrir íbúa Norðurlands að skreppa til Amsterdam. Ferðaskrifstofa Akureyrar annast sölu á ferðum frá Akureyri til Amsterdam og segir markaðsstofan að þessu framtaki sé vel tekið af heimafólki.