*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 16. september 2020 11:38

Næst flest smit innanlands í haust

13 ný smit á kórónuveirunni greindust innanlands í gær, og hafa þau einungis einu sinni verið fleiri í þessari bylgju.

Ritstjórn
Skimanir fyrir kórónuveirunni hafa farið fram víða um heim.

Í gær greindust 13 ný innanlandssmit kórónuveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum og er það talsvert stökk frá þeim 6 smitum sem mældust í gær og 1-2 dagana áður.

Er þetta næstmesti smitfjöldi innanlands frá 6. ágúst þegar sagt var frá því að 16 smit hefðu greinst, en síðan þá hefur mesti fjöldinn verið 10 smit 20. ágúst síðastliðinn.

Af smitunum nú mældist 1 í skimun Íslenskrar erfðagreiningar, en 12 í sameiginlegri skimunardeild á vegum fyrirtækisins og sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans.

Jafnframt greindust tvö virk smit við landamæraskimun, en í báðum tilvikum var um seinni skimun að ræða sem kemur eftir 5 til 6 daga sóttkví viðkomandi einstaklinga eftir komu til landsins.

Samtals eru nú 437 í sóttkví og 2.118 manns í skimunarsóttkví eftir komu til landsins, 75 í einangrun og 1 á sjúkrahúsi. Af þeim sem greinst hafa með Covid 19 á Íslandi eru nú 10 einstaklingar látnir.

Stikkorð: greining Smit kórónuveira skimun