Namibísk yfirvöld íhuga að taka sér eignarhlut í öllum námu- og olíufyrirtækjum í landinu, en Namibía er stærsti úraníumframleiðandi Afríku og einn stærsti demantaframleiðandi álfunnar.

Námu- og orkumálaráðherrann Tom Alweendo sagði á namibíska þinginu í vikunni að ríkið ætti að eiga lágmarks hlut í öllum námu- og orkufyrirtækjum án þess að greiða fyrir hlutinn.

Namibísk yfirvöld eru auk þess með það til skoðunar að stofna svokallaðan jarðefnaleitarsjóð sem yrði fjármagnaður að hluta til með þeim arði sem félögin myndu greiða til ríkisins.

Sjóðurinn yrði m.a. notaður til að styðja við frumkvöðla í Namibíu sem vilja fjárfesta í námugeiranum, að sögn ráðherrans.