*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Erlent 19. júlí 2019 13:24

Í mál við Samherja vegna skipasölu

Samstarfsaðilar Samherja í Namibíu kæra til að stöðva sölu á skipi upp í skuldir. Samherji segir engan fót fyrir ásökununum.

Ritstjórn
Fána Namibíu veifað, en landið sem var upphaflega þýsk nýlenda sem Suður Afríka tók stjórn á eftir fyrri heimsstyrjöldina, fékk sjálfstæði árið 1990 eftir samningaviðræður uppreisnarmanna og ríkisstjórnar Þjóðarflokksins í Suður Afríku.

Tvö fiskveiðifyrirtæki í Namibíu, sem áður hét Suðvestur Afríka, hafa farið fram á að dómstólar þar í landi stöðvi sölu á fiskiskipi sem fyrirtækin eiga á móti Samherja. Skipið, sem er verðmetið á 400 milljónir namibískra dali, eða sem nemur 3,6 milljörðum íslenskra króna, er gert út af félaginu Arcticnam, áður Esja Fishing, sem stofnað var árið 2015.

Eiga namibísku félögin Sinco Fishing og Epango Fishing samanlagt 51% en Samherji 49% í útgerðarfélaginu, en félögin tóku 400 milljóna namibískra dala lán til að kaupa skipið sem gert hefur verið út á makrílveiðar. Salan er gerð að kröfu Samherjamanna vegna þess að 120 milljónir namibískra dala eru enn útistandandi.

Söluaðili skipsins var félagið Heinaste Investments sem er í eigu Samherja, en kaupandinn var formlega annað félag sem stofnað var utan um eignarhlutinn í skipinu, Arcticnam Investments, en þar eiga Samherjamenn meirihlutann að því er Undercurrent news greinir frá.

Eignarhaldsfélag Samherja í því, Esja Holdings, hefur boðað fund í næsta mánuði til að knýja á um sölu á skipinu, sem ber nafnið Heineste, til þess að greiða upp lánin, og er krafa namibísku félaganna að dómstólar grípi inn í og stöðvi söluna.

Vilja rannsókn á starfseminni vegna brigsla um óstjórn og spillingu

Vilja namibísku félögin að rannsókn verði gerð á starfsemi Heinaste Investments, en Sharon Neumbo stjórnarformaður Sinco segir að sínu viti hafi starfsemin gengið samkvæmt áætlunum.

„Skipið var notað til að veiða kvóta namibísku félaganna og lánin til að kaupa skipið greidd upp samkvæmt samþykktum,“ er haft eftir henni The Namibian í Undercurrent News, en fyrirtækin hafa jafnframt sakað Samherja um spillingu.

„Arcticnam Fishing og Arcticnam Investments liggja í raun í dvala eftir óstjórn af hálfu [Esja Holdings].“ Dómstóllinn í Windhoek hefur boðað til fyrirtöku í málinu 24. júlí næstkomandi.

Einhliða rangfærslur heimamanna

Arna McClure, lögmaður Samherja, segir ekkert hæft í ásökununum.  „Þetta er einhliða frásögn eins aðila sem við höfum átt í deilum við og er uppfull af rangfærslum. Þessar fullyrðingar byggja ekki á neinum skjölum. Það stendur til að selja þetta skip því samstarfi þessara aðila lauk formlega um síðustu áramót. Það er óeining um þetta og verið að leysa úr því hvort hluthafafundur um sölu á skipinu eigi að fara fram eða ekki. Það hvílir ógreitt lán á skipinu sem átti að vera búið að greiða upp en er ekki búið að gera, segir Anna McClure, lögmaður Samherja.