Iða Brá Benediktsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs Arion banka. Hún er að taka við starfi sem Halldór Bjarkar Lúðvígsson gegndi áður en hann hætti nýverið störfum hjá bankanum. Iða Brá hefur starfað hjá Arion banka og forverum hans um árabil. Hún byrjaði sem sumarstarfsmaður í bakvinnslu Kaupþings árið 1998 en árið eftir var hún ráðin á greiningardeildina. Síðan þá hefur hún gegnt ýmsum störfum í bankanum. Hún hefur verið forstöðumaður í fjárstýringu, stýrt samskiptaviðinu og áður en hún tók við nýja starfinu var hún forstöðumaður einkabankaþjónustu á Eignastýringarsviði.

„Það má segja að ég sé alin upp í banka," segir Iða Brá. „Ég er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum þar sem pabbi minn, Benedikt Ragnarsson, var sparisjóðsstjóri. Eftir grunnskólann fór ég í Versló og síðan í viðskiptafræði í Háskóla Íslands og eftir það var ég ráðin til Kaupþings. Ég hef því unnið í banka allan minn starfsferil eða frá því ég var 22 ára. Ég tók mér reyndar smá frí þegar ég fór í framhaldsnám til Hollands."

Skíði og grænir fingur

Iða Brá er gift Einari Þór Guðjónssyni viðskiptafræðingi. "Við eigum saman þrjú börn og ég á líka eina stjúpdóttur." Þegar hún er spurð hvað hún geri í sínum frístundum segist hún hafa nóg að gera — áhugamálin séu mörg.

„Fjölskyldan er númer eitt, tvö og þrjú. Við reynum að fara eins oft og við getum saman á skíði og einnig höfum við gaman að því að ferðast og fara í útilegur. Ég slaka mjög vel á þegar ég er að vinna í garðinum. Ég les líka mjög mikið og þá gjarnan skáldsögur en líka allt sem ég finn um vesturfarana."

Iða Brá segist einnig stunda líkamsrækt af nokkru kappi.  „Ég fer með vinkonum mínum til einkaþjálfara þrisvar í viku en ég get kannski ekki sagt að ræktin sé eitthvað sérstakt áhugamál þannig," segir hún og hlær.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .