Nasdaq vísitalan lækkaði örlítið í dag eða um 0,09% og stendur vísitalan í 2674,46 stigum í lok dagsins. Dow Jones vísitalan hækkaði um 0,04% og Standard & Poor's um 0,15%. Dagurinn byrjaði vel og var Nasdaq vísitalan í plús fram að hádegi.

Í dag var tilkynnt að sala á fasteignum hefur lækkað um 9% og hefur ekki verið minni í 12 ár. Meðalverð fasteigna var um 40 milljónir í nóvember sem þykir langt yfir meðallagi. Þessar fréttir höfðu mikil áhrif á hlutbréf bæði fjárfestingabanka og eins smásala með húsnæðisvörur. Citigroup, Bank of America og JP Morgan lækkuðu öll í dag og telur Bloomberg.com að neikvæðar fréttir af fasteignamarkaði hafi þar áhrif.

Hins vegar hækka orku- og olíufyrirtæki. Olíuverð hækkaði örlítið í dag og kostar olíutunnan nú 97,92 bandaríkjadali. Þann 23. nóvember síðastliðin kostaði tunnan 98,18 dali en eftir það féll verðið aftur. Nú virðist olíuverð vera að ná sömu hæðum og í lok nóvember.

Gullið hélt áfram að hækka og hækkaði um 1,3% í dag. Únsan af gulli kostar nú 842,7 bandaríkjadali.

Macy's tilkynnti í dag um lokun 15 verslana í byrjun næsta árs sem ekki hafa skilað árangri. Í verslununum starfa 899 manns. Macy's hefur lækkað um 33% á þessu ári en við fréttirnar í dag hækkuðu bréf um 1,8% í fyrirtækinu. Þá kom einnig fram hjá talsmanni Macy's að fyrirtækið ætli að taka til í rekstri sínum á næsta ári. Macy's mun reka 815 verslanir víðsvegar um Bandaríkin eftir breytingarnar.

Mikið er rætt um áframhaldani lækkun stýrivaxta. Þær raddir koma þá aðallega frá fjármálafyrirtækjum. Þann 30. janúar næstkomandi mun bandaríski seðlabankinn tilkynna um vaxtaákvörðun sína og vonast mörg fjármálafyrirtæki til þess að þeir lækki úr 4,25 stigum í 4 stig. Þá hafa veðbankar aukið líkur sínar á því að stýrivextir lækki í 3,75 stig í mars á næsta ári.