Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun áform um að setja á fót samráðshóp helstu hagsmunaaðila til að útfæra nánar hugmyndir um svokallaðan náttúrupassa eða ferðakort. Gert er ráð fyrir að vinnu við útfærslu ljúki í lok árs og að frumvarp verði lagt fram á Alþingi í byrjun næsta árs.

Í tilkynningu á vef atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins kemur fram að erlendum ferðamönnum hefur fjölgað umtalsvert á síðustu árum. Í nýlegum rannsóknum er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti og að fjöldi erlendra ferðamanna fari yfir milljón á árinu 2020. Ráðherra telur ljóst að þessi mikla aukning ferðamanna kalli á verulegt átak í uppbyggingu innviða til að koma í veg fyrir tjón og skemmdir á íslenskri náttúru. Sé þessi innviðauppbygging tekin föstum tökum núna megi gera ráð fyrir að hægt sé að auka verulega þolmörk íslenskra ferðamannastaða og renna nauðsynlegum stoðum undir það að ferðaþjónustan geti haldið áfram að vaxa og dafna.

„Hagsmunaaðilar og ráðgjafar hafa sett fram hugmyndir að hinum ýmsu leiðum til að afla fjármagns til uppbyggingar ferðamannastaða en skiptar skoðanir eru á því hvernig best sé að standa að því. Undanfarnar vikur hefur verið í gangi vinna við að kortleggja þær hugmyndir sem settar hafa verið fram um hvernig best sé að haga fjármögnun og útdeilingu fjár til ferðamannastaða til uppbyggingar. Eftir þá yfirferð er það niðurstaðan að skynsamlegast sé að vinna að frekari útfærslu á svokölluðum náttúrupassa eða ferðakorti. Það sé sú hugmynd sem líklegust er til að njóta sem breiðastrar samstöðu meðal hagsmunaaðila enda mismunar hún ekki ólíkum rekstraraðilum innan ferðaþjónustunnar,“ segir á vef ráðuneytisins.

Megin hugmyndin að baki ferðakorti er að þeir greiði sem raunverulega heimsækja þá ferðamannastaði sem kortið tekur til og stuðli að vernd.