Á meðan ekki er upplýst hvað fór þeim Davíð Oddssyni og Geir H. Haarde á milli, í aðdraganda 500 milljóna evra láns til Kaupþings og setningar neyðarlaganna, þá er ákveðið gat í öllu ferlinu við að upplýsa aðdraganda bankahrunsins.

Þetta er mat Ragnars H. Hall hæstaréttarlögmanns, en hann var gestur í sjónvarpsþættinum Eyjunni. Ragnar segir merkilegt, í ljósi þess hversu miklum fjármunum hafi verið eytt í að rannsaka aðdraganda hrunsins, að ekki hafi fengist niðurstaða í það, hvert innihald símtalsins var sem fyrrverandi forsætisráðherra átti við fyrrverandi formann bankastjórnar Seðlabankans, þann 6. október 2008.

Að sögn Ragnars var ljóst að með setningu neyðarlaganna myndi Kaupþing ekki lifa af. Ástæðan er sú að með því að færa bankainnstæður framar öðrum kröfum myndu hagsmunir kröfuhafa raskast, sem hlaut að leiða til gjaldfellingar lánasamninga erlendra lánastofnana.

Því veltir hann þeirri spurningu upp, hvers vegna verið var að afhenda helming gjaldeyrisvaraforða landsins um leið og lagasetning var undirbúin sem gerði það að verkum að Kaupþing gæti ekki lifað. Nauðsynlegt sé að brjóta til mergjar hvort þeir sem tóku ákvörðun um lánveitinguna hafi vitað að bankinn gæti ekki staðið neyðarlögin af sér.

„Þarna er til símtal, sem vitað er að getur varpað ljósi á aðdraganda þessarar rosalega mikilvægu ákvörðunar, annars vegar lánveiting til Kaupþings og hins vegar setning neyðarlaganna,“ sagði Ragnar í þættinum.

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hefur ekki gefið leyfi fyrir því að símtal hans við Davíð Oddsson, fyrrverandi formann bankastjórnar Seðlabankans, verði gert opinbert. Hann segist ekki hafa vitað að samtalið var tekið upp og það sé bundið þagnarskyldu.